
Innihald: Kartöflur, rauðlaukur, laukur, hvítlaukur, púrrlaukur, gulrætur, paprika, smurostur, mjólk, grænmetiskraftur og nautakraftur.
Aðferð: Flysjaði kartöflurnar, skar í passlega munnbita og sauð þær. Brytjaði laukana, gulrætur og papriku niður og steikti við vægan hita á pönnu. Þegar kartöflurnar voru næstum því soðnar skellti ég grænmetinu útí pottinn, setti slatta af smurosti (létt beikon osti) og dass af mjólk útí.Síðan fóru 2 teningar af grænmetiskrafti og einn af nautakrafti útí. Þetta lét ég allt saman sjóða saman í dágóðastund (eða þar til að kartöflurnar og grænmetið var tilbúið).
Glöggir lesendur átta sig á því að það er ekkert magn gefið uppí uppskriftinni, ástæðan fyrir því að ég er ekkert hrifin af mælieiningum þegar ég galdra eitthvað fram úr erminni. Ég skoðaði nokkrar mismunandi uppskriftir af kartöflusúpu áður en ég hófst handa í gær, tók allt það besta (að mínu mati) úr þeim öllum og setti í pott, jafn mikið af öllu og mig langaði til að hafa í súpunni minni, því ég veit hvað mér finnst gott og hvað ekki. T.d. finnst mér laukur agalega góður enda fór 1 laukur, 1 rauðlaukur, 2 hvítlauksgeirar og frekar mikið af púrrlauk í súpuna en aftur á móti setti ég frekar lítið af gulrótum því mér finnst þær ekki jafn góðar. Það er líka snilldin við matseld, maður hefur bara það sem manni sjálfum finnst gott, ef einhverjum finnst t.d. sellerí geðveikt gott þá er um að gera að skella því með eða rófum eða tja eiginlega bara því sem hugurinn girnist (innan skynsamlegra marka þó).
Ég gerði mér ekki grein fyrir því hvað þetta var rosalega matarmikil súpa þegar ég hófst handa þannig að það var nóg af afgangi, einnig hitaði ég brauð með því venjulega verð ég að hafa brauð með súpu en því var algjörlega ofaukið í gær. Restina af súpunni borðuðum við í hádeginu áðan og þá var ennþá eftir einn skammtur svo hann fór í frystinn og bíður betri tíma.
Svo má ekki gleyma því sem ég er alltaf að hamra á, að það er algjör óþarfi að henda mat ef það er ekkert að honum. Ef einhverjum dettur í hug að gera þessa dýrindis kartöflusúpu heima munið þá að henda ekki flusinu heldur hafa það sem kvöldsnakk yfir bíómynd kvöldsins - flus, olía, salt og pipar í eldfast mót og inní ofn við háan hita í 20-30 mín.- fljótlegt, ódýrt og gott en ekkert svakalega hollt.
Húsráð dagsins:
Lærðu að elska edik.
Edik og vatn í spreybrúsa og þá ertu komin með fínasta fægilög tilvalinn á gler og spegla, svo skemmir ekki fyrir að geyma eitt fréttablað fyrir næsta hreingerningardag og pússa gler og spegla með dagblaði og edikblöndunni. Speglarnir í húsinu munu aldrei hafa verið hreinni en eftir þau þrif!
Edik er einnig mjög gott í margt annað, ef það er vond lykt er um að gera að setja edik í skál og láta standa, vonda lyktin mun hverfa (og edik lyktin líka). Þannig nær maður t.d. vondri lykt úr ísskápum og frystikistum, einnig nota ég edik þegar ég þvæ lopaflikurnar mínar, edikið festir litinn. Edik dugar líka vel á marga bletti í þvotti, einnig til að ná svitalykt úr fötum, svo er ekkert að því að setja edik með í þvottavélina, það eyðir lykt, festir litinn og mýkir þvottinn. Svo segir sagan að það hreinsi burt kísil á blöndunartækjum.
Ég nota borðedik sem fæst í öllum matvöruverslunum og það og klósetthreinsir er það eina sem er í "hreingerningarskápnum" mínum.
geðveik súpa!
SvaraEyðaHelvíti magnað! Ég fékk einmitt spurningu á formspringið mitt um hvernig maður getur náð svitalykt úr ræktarfötunum, ég verð greinilega að miðla þessum edik fróðleik áfram! Svo líst mér rosalega vel á þessa súpu hjá þér. Súpur eru líka svo mikil snilld, alltaf hægt að henda einhverju random í pott og yfirleitt verður það gott!
SvaraEyðaJá, það á að virka að setja edik í mýkingarefnishólfið, svo hef ég líka heyrt að matarsódi virki líka. Annars er hægt að kaupa Rodalon í apótekum sem gerir það sama :) (gott að vita af öllum mögulegm aðferðum ef þetta er það svæsið tilvik að edik virki ekki...Sem er ólíklegt því edik er töfraefni!)
SvaraEyða