mánudagur, 17. október 2011

Sunnudagsmáltíðin.

Það er svo sannarlega búið að vera líf og fjör hjá mér síðustu viku. Síðastliðinn þriðjudag vaknaði ég klukkan 05:30 og brunaði norður yfir heiðar og var mætt heim í Fnjóskadalinn fyrir hádegi. Ég átti mjög annasama daga fyrir norðan áður en að ég brunaði aftur suður á fimmtudagskvöldinu. Sigga frænka, maður og barn komu síðan um nóttina og gistu hjá okkur um helgina. Þau fóru í hádeginu í dag af stað aftur og það verður að segjast að litla dýrið þeirra er orkumikið! Á morgun eru svo mamma og pabbi að koma í heimsókn á leið sinni útá keflavíkurflugvöll.

Annars þá verður þetta stutt, ætlaði rétt að segja ykkur frá sunnudagsmáltíðinni. Margir líta á sunnudaga sem veisludaga, ekki endilega eitthvað óhollt heldur bara eitthvað rosalega gott. Í sunnudagsmatinn hjá mér í kvöld voru lambakótilettur með tilheyrandi. Mjög einfalt og agalega gott.

1. skál: Egg og mjólk hrært saman.
2. skál: Brauðrasp + krydd (pipar og salt)

Kótiletturnar eru marðar með kjöthamri og síðan velt uppúr skál 1 og svo skál 2, steikt í smá stund á hvorri hlið á pönnu. Fá fallegan lit. Skellt í eldfast mót og inní ofn á meðan restin er útbúin. Meðlætið í kvöld var afar einfalt, afgangur af ferska salatinu frá því í gær og afgangar af soðnum kartöflum. Reyndar tók ég kartöflurnar og skar í bita, steikti á pönnu (þar til heitar í gegn) og kryddaði  - aðeins betra en kaldar soðnar kartöflur. Einnig var ég með steikt grænmeti, lauk, púrrlauk, gulrætur, brokkolí, blómkál og paprika skorið niður og steikt á pönnu, kryddað með aromati, piparblöndu og jurtasalti. Með þessu hafði ég svo afar ómerkilega pakka-sveppasósu bragðbætta með kjötsoðinu sem kom í mótið eftir ofnveruna.
Þegar meðlætið var tilbúið tók ég kjötið úr ofninum.Namm namm.

(okay ég svindlaði, það voru ekki til egg svo ég setti smá hveiti útí mjólkina í skál 1 - en það virkar alveg jafn vel svo ekki örvænta ef það eru ekki til egg!)

Húsráð dagsins:
Blettir í flíkum að fara með þig? Ég nota uppþvottalög eða edik á bletti, ef það virkar ekki tek ég penslasápuna frá undra og nudda á blettinn, skelli í plastpoka, bind fyrir og set það síðan í þvott sólahring síðar.

Ég hélt ég ætlaði aldrei að ná karrýblettum úr hvíta bolnum mínum, að lokum setti ég uppþvottalög á blettinn, beið í sólahring í lokuðum plastpoka og beint í þvottavélina -bolurinn hefur aldrei litið betur út!
Ég fékk gamla kósý peysu frá ömmu, mamma hirti hana fyrir mig svo ég gæti tekið tölurnar, en það voru gulir stórir blettir í peysunni og hún var lengst inni í skáp svo það hefur greinilega verið langt síðan að amma notaði hana.Ég tímdi ekki að gefast uppá peysunni enda fannst mér hún alveg geggjuð!
Penslasápan gerði ótrúlegt kraftaverk, nuddaði henni á blettina, setti í plastpoka, batt fyrir og sólarhring seinna handþvoði ég hana (prjónuð peysa) og voilá! Næstum betri en ný - Ef þið komið í óvænta heimsókn á kósý læridegi er bókað mál að ég er í peysunni, blettalausri!

mánudagur, 3. október 2011

Kartöflusúpa!

Uppskrift dagsins er ótrúlega einföld en ótrúlega góð. Ég var í einhverju basli í gær yfir því hvað ég ætti að elda, nennti því eiginlega ekki, þurfti að læra en langaði í góðan mat. Ég leit inní ísskáp og sá að ef ég ætti nóg af einhverju væru það kartöflur, enda eru kartöflur eitt af því sem mér finnst algjörlega ómissandi með mat. Útkoman í gærkvöldi var algjört lostæti.


Kartöflusúpa:
Innihald: Kartöflur, rauðlaukur, laukur, hvítlaukur, púrrlaukur, gulrætur, paprika, smurostur, mjólk, grænmetiskraftur og nautakraftur.

Aðferð: Flysjaði kartöflurnar, skar í passlega munnbita og sauð þær. Brytjaði laukana, gulrætur og papriku niður og steikti við vægan hita á pönnu. Þegar kartöflurnar voru næstum því soðnar skellti ég grænmetinu útí pottinn, setti slatta af smurosti (létt beikon osti) og dass af mjólk útí.Síðan fóru 2 teningar af grænmetiskrafti og einn af nautakrafti útí. Þetta lét ég allt saman sjóða saman í dágóðastund (eða þar til að kartöflurnar og grænmetið var tilbúið).


Glöggir lesendur átta sig á því að það er ekkert magn gefið uppí uppskriftinni, ástæðan fyrir því að ég er ekkert hrifin af mælieiningum þegar ég galdra eitthvað fram úr erminni. Ég skoðaði nokkrar mismunandi uppskriftir af kartöflusúpu áður en ég hófst handa í gær, tók allt það besta (að mínu mati) úr þeim öllum og setti í pott, jafn mikið af öllu og mig langaði til að hafa í súpunni minni, því ég veit hvað mér finnst gott og hvað ekki. T.d. finnst mér laukur agalega góður enda fór 1 laukur, 1 rauðlaukur, 2 hvítlauksgeirar og frekar mikið af púrrlauk í súpuna en aftur á móti setti ég frekar lítið af gulrótum því mér finnst þær ekki jafn góðar. Það er líka snilldin við matseld, maður hefur bara það sem manni sjálfum finnst gott, ef einhverjum finnst t.d. sellerí geðveikt gott þá er um að gera að skella því með eða rófum eða tja eiginlega bara því sem hugurinn girnist (innan skynsamlegra marka þó).

Ég gerði mér ekki grein fyrir því hvað þetta var rosalega matarmikil súpa þegar ég hófst handa þannig að það var nóg af afgangi, einnig hitaði ég brauð með því venjulega verð ég að hafa brauð með súpu en því var algjörlega ofaukið í gær. Restina af súpunni borðuðum við í hádeginu áðan og þá var ennþá eftir einn skammtur svo hann fór í frystinn og bíður betri tíma.

Svo má ekki gleyma því sem ég er alltaf að hamra á, að það er algjör óþarfi að henda mat ef það er ekkert að honum. Ef einhverjum dettur í hug að gera þessa dýrindis kartöflusúpu heima munið þá að henda ekki flusinu heldur hafa það sem kvöldsnakk yfir bíómynd kvöldsins - flus, olía, salt og pipar í eldfast mót og inní ofn við háan hita í 20-30 mín.- fljótlegt, ódýrt og gott en ekkert svakalega hollt.

Húsráð dagsins:
Lærðu að elska edik.
Edik og vatn í spreybrúsa og þá ertu komin með fínasta fægilög tilvalinn á gler og spegla, svo skemmir ekki fyrir að geyma eitt fréttablað fyrir næsta hreingerningardag og pússa gler og spegla með dagblaði og edikblöndunni. Speglarnir í húsinu munu aldrei hafa verið hreinni en eftir þau þrif!
Edik er einnig mjög gott í margt annað, ef það er vond lykt er um að gera að setja edik í skál og láta standa, vonda lyktin mun hverfa (og edik lyktin líka). Þannig nær maður t.d. vondri lykt úr ísskápum og frystikistum, einnig nota ég edik þegar ég þvæ lopaflikurnar mínar, edikið festir litinn. Edik dugar líka vel á marga bletti í þvotti, einnig til að ná svitalykt úr fötum, svo er ekkert að því að setja edik með í þvottavélina, það eyðir lykt, festir litinn og mýkir þvottinn. Svo segir sagan að það hreinsi burt kísil á blöndunartækjum.
Ég nota borðedik sem fæst í öllum matvöruverslunum og það og klósetthreinsir er það eina sem er í "hreingerningarskápnum" mínum.