fimmtudagur, 1. desember 2011

Fallegir hlutir

Í tilefni þess að ég náði að klára takmark dagsins í dag í lærdómnum ákvað að ég að skella inn nokkrum myndum.






Þessa peysu prjónaði ég og gaf Hannesi bróður í þrítugs afmælisgjöf. Fékk Sindra til að pósa fyrir mig í henni þegar að snjórinn var kominn.

Finnst þessi mjög flott, er í Lopa 12 held ég alveg ábyggilega.


Svo ætla ég að láta nokkrar myndir frá síðustu viku fylgja með, en snjókoman gerði alveg útslagið og setti mig í dúndrandi jólastemmingu. Getið ekki ímyndað ykkur hvað ég var glöð daginn sem ég vaknaði og leit útum gluggan og jörðin var hvít.




    Jólagardínu breytt í jóladúk                           Sindri elskan að baka smákökur.                   Útsýnið útum stofugluggann,         .                                                                                                                                                        ævintýraland.







Ódýri aðventukransinn. Aðeins efniviður úr eldhúsinu og trjánum úti við göngustíg. Brún hrísgrjón, ber sem ég tíndi í haust, greni, perlur og kókosmjöl sem smá snjór.
Viðurkenni það reyndar að ég ætla mér að splæsa í veglegri kerti fyrir næsta sunnudag!


Kakó í múmínálfabollunum okkar og einhversstaðar voru smákökur á múmínálfadiskum!
















þriðjudagur, 22. nóvember 2011

Prófin nálgast

Nú er svo sannarlega kominn tími til að setjast niður og láta ljós mitt skína á lyklaborðið og koma með enn eina snilldina hérna inn.

Í dag verður eitthvað fyrir handóða, matóða og hreingerningaróða. Nú þegar prófin eru að fara að skella á þá finn ég mér alltaf eitthvað nýtt að gera, annað en lærdóminn. Núna t.d. sit ég á bókasafninu í Stakkahlíðinni og langar mest til þess að naglalakka á mér neglurnar, ég er með allt til þess í töskunni, svona ef mér skyldi leiðast. Annars gerðist ég stór stelpa í morgun og prófaði þessa þjóðarbókhlöðu, fínt að hafa lokið því af, núna þarf ég ekki að fara þangað aftur.Ég fór meira segja líka á háskólatorg þar þurfti ég að borða með plasthnífapörum. Nei þá held ég að það sé betra að vera í stakkó! Annars eitt af því sem ég hef verið að dunda mér við uppá síðakastið er að klára ýmislegt sem ég hef verið með á prjónunum og  tilraunastarfsemi í eldhúsinu.

Handavinna
Hérna er reyndar mynd af eyrnaskjóli og vettlingum sem ég gerði í sumar, langt síðan ég hef tekið myndir af handavinnunni. Uppskriftin af eyrnaskjólinu fékk ég í bókinni Prjónaperlur, vettlingana spann ég síðan út frá munstrinu á eyrnaskjólunum. Tvöfaldur  plötulopi. Þetta eru frekar geggjaðir litir saman finnst mér!

Annars ég er að klára peysu á Sindra, á aðeins eftir að festa tölurnar svo er aldrei að vita nema ég skelli inn mynd hérna!



Uppskrift

Hver kannast ekki við að hafa "bara" fahitas í matinn því það er fljótlegt og einfalt. Svo kemur sá dagur að það er ekki spennandi lengur en þá er fínt að taka kökur (1-2 á mann) tala nú ekki um ef það er afgangur af steiktu hakki eða steiktum kjúklingi inní ísskáp, upplagt að nota afgangana í þetta.
Kökurnar eru hitaðar örlítið og síðan smurðar með salsa sósu, ostasósu, sýrðum rjóma og guacamole eða bara það sem þér finnst gott!
Svo er næsta spurning, hvaða grænmeti finnst þér gott pínu hitað? Ég persónulega set lauk og sveppi inn í og hef papriku, tómata og gúrku ferska með.
Því næst er ein ostssneið sett og að lokum sett steikt hakk eða steiktur kjúklingur. Kökunni er síðan lokað eftir bestu getu (ég nota tannstöngla til að festa) en nota ben það er ekkert einfalt, það þarf líka að passa sig á því að setja ekki of mikið inní kökuna þá er þetta náttúrlega vonlaust mál. Svo raða ég kökunum í eldfast  mót, dreifi smá osti yfir og skelli síðan tómatsneið á hverja köku, bara af því að mér finnst það gott. Þetta er inní ofni á meðan hrísgrjónin eru að sjóða.
Hrísgrjón eru annars soðin þannig að það er eitt mál af hrísgrjónum og tvö af vatni, tilbúið þegar vatnið er horfið (passa að lækka hitann undir pottinum). Borið fram með nachos og grænmeti.

Dýrindis máltíð alveg hreint, ef ykkur finnst vera of lítil sósa þá er um að gera að bera sósurnar með fram.



Húsráð dagsins
Þetta er frekar öðruvísi húsráð, en ef allt bregst, það getur enginn sem þú þekkir hjálpað þér. Taktu þá upp símann og hringdu í Leiðbeiningastöð heimilanna, þar mun svara þér manneskja full af fróðleik og fús til að hjálpa. Einnig er margt gagnlegt og gott á heimasíðunni þeirra, mikið af uppskriftum og það er hægt að skrá sig inn og safna sér í uppskriftarmöppu! Mæli með þessu!

mánudagur, 14. nóvember 2011

Spaghettiskrísmli.

Eitt stutt í tilefni mánudagsins.

Skemmtileg hugmynd fyrir spaghetti. Einfalt, fljótlegt og örugglega gott. Fékk ekki að smakka í þessari tilraunastarfsemi í eldhúsinu heima en Sindri fékk hugmyndina á 9gag.

Já þetta er gert nákvæmlega eins og þú ert að hugsa, pylsubitar þrædd uppá spaghetti og soðið. Borið fram með því sem þér dettur í hug væntanlega, í þessu tilfelli tómatsósu.

mánudagur, 17. október 2011

Sunnudagsmáltíðin.

Það er svo sannarlega búið að vera líf og fjör hjá mér síðustu viku. Síðastliðinn þriðjudag vaknaði ég klukkan 05:30 og brunaði norður yfir heiðar og var mætt heim í Fnjóskadalinn fyrir hádegi. Ég átti mjög annasama daga fyrir norðan áður en að ég brunaði aftur suður á fimmtudagskvöldinu. Sigga frænka, maður og barn komu síðan um nóttina og gistu hjá okkur um helgina. Þau fóru í hádeginu í dag af stað aftur og það verður að segjast að litla dýrið þeirra er orkumikið! Á morgun eru svo mamma og pabbi að koma í heimsókn á leið sinni útá keflavíkurflugvöll.

Annars þá verður þetta stutt, ætlaði rétt að segja ykkur frá sunnudagsmáltíðinni. Margir líta á sunnudaga sem veisludaga, ekki endilega eitthvað óhollt heldur bara eitthvað rosalega gott. Í sunnudagsmatinn hjá mér í kvöld voru lambakótilettur með tilheyrandi. Mjög einfalt og agalega gott.

1. skál: Egg og mjólk hrært saman.
2. skál: Brauðrasp + krydd (pipar og salt)

Kótiletturnar eru marðar með kjöthamri og síðan velt uppúr skál 1 og svo skál 2, steikt í smá stund á hvorri hlið á pönnu. Fá fallegan lit. Skellt í eldfast mót og inní ofn á meðan restin er útbúin. Meðlætið í kvöld var afar einfalt, afgangur af ferska salatinu frá því í gær og afgangar af soðnum kartöflum. Reyndar tók ég kartöflurnar og skar í bita, steikti á pönnu (þar til heitar í gegn) og kryddaði  - aðeins betra en kaldar soðnar kartöflur. Einnig var ég með steikt grænmeti, lauk, púrrlauk, gulrætur, brokkolí, blómkál og paprika skorið niður og steikt á pönnu, kryddað með aromati, piparblöndu og jurtasalti. Með þessu hafði ég svo afar ómerkilega pakka-sveppasósu bragðbætta með kjötsoðinu sem kom í mótið eftir ofnveruna.
Þegar meðlætið var tilbúið tók ég kjötið úr ofninum.Namm namm.

(okay ég svindlaði, það voru ekki til egg svo ég setti smá hveiti útí mjólkina í skál 1 - en það virkar alveg jafn vel svo ekki örvænta ef það eru ekki til egg!)

Húsráð dagsins:
Blettir í flíkum að fara með þig? Ég nota uppþvottalög eða edik á bletti, ef það virkar ekki tek ég penslasápuna frá undra og nudda á blettinn, skelli í plastpoka, bind fyrir og set það síðan í þvott sólahring síðar.

Ég hélt ég ætlaði aldrei að ná karrýblettum úr hvíta bolnum mínum, að lokum setti ég uppþvottalög á blettinn, beið í sólahring í lokuðum plastpoka og beint í þvottavélina -bolurinn hefur aldrei litið betur út!
Ég fékk gamla kósý peysu frá ömmu, mamma hirti hana fyrir mig svo ég gæti tekið tölurnar, en það voru gulir stórir blettir í peysunni og hún var lengst inni í skáp svo það hefur greinilega verið langt síðan að amma notaði hana.Ég tímdi ekki að gefast uppá peysunni enda fannst mér hún alveg geggjuð!
Penslasápan gerði ótrúlegt kraftaverk, nuddaði henni á blettina, setti í plastpoka, batt fyrir og sólarhring seinna handþvoði ég hana (prjónuð peysa) og voilá! Næstum betri en ný - Ef þið komið í óvænta heimsókn á kósý læridegi er bókað mál að ég er í peysunni, blettalausri!

mánudagur, 3. október 2011

Kartöflusúpa!

Uppskrift dagsins er ótrúlega einföld en ótrúlega góð. Ég var í einhverju basli í gær yfir því hvað ég ætti að elda, nennti því eiginlega ekki, þurfti að læra en langaði í góðan mat. Ég leit inní ísskáp og sá að ef ég ætti nóg af einhverju væru það kartöflur, enda eru kartöflur eitt af því sem mér finnst algjörlega ómissandi með mat. Útkoman í gærkvöldi var algjört lostæti.


Kartöflusúpa:
Innihald: Kartöflur, rauðlaukur, laukur, hvítlaukur, púrrlaukur, gulrætur, paprika, smurostur, mjólk, grænmetiskraftur og nautakraftur.

Aðferð: Flysjaði kartöflurnar, skar í passlega munnbita og sauð þær. Brytjaði laukana, gulrætur og papriku niður og steikti við vægan hita á pönnu. Þegar kartöflurnar voru næstum því soðnar skellti ég grænmetinu útí pottinn, setti slatta af smurosti (létt beikon osti) og dass af mjólk útí.Síðan fóru 2 teningar af grænmetiskrafti og einn af nautakrafti útí. Þetta lét ég allt saman sjóða saman í dágóðastund (eða þar til að kartöflurnar og grænmetið var tilbúið).


Glöggir lesendur átta sig á því að það er ekkert magn gefið uppí uppskriftinni, ástæðan fyrir því að ég er ekkert hrifin af mælieiningum þegar ég galdra eitthvað fram úr erminni. Ég skoðaði nokkrar mismunandi uppskriftir af kartöflusúpu áður en ég hófst handa í gær, tók allt það besta (að mínu mati) úr þeim öllum og setti í pott, jafn mikið af öllu og mig langaði til að hafa í súpunni minni, því ég veit hvað mér finnst gott og hvað ekki. T.d. finnst mér laukur agalega góður enda fór 1 laukur, 1 rauðlaukur, 2 hvítlauksgeirar og frekar mikið af púrrlauk í súpuna en aftur á móti setti ég frekar lítið af gulrótum því mér finnst þær ekki jafn góðar. Það er líka snilldin við matseld, maður hefur bara það sem manni sjálfum finnst gott, ef einhverjum finnst t.d. sellerí geðveikt gott þá er um að gera að skella því með eða rófum eða tja eiginlega bara því sem hugurinn girnist (innan skynsamlegra marka þó).

Ég gerði mér ekki grein fyrir því hvað þetta var rosalega matarmikil súpa þegar ég hófst handa þannig að það var nóg af afgangi, einnig hitaði ég brauð með því venjulega verð ég að hafa brauð með súpu en því var algjörlega ofaukið í gær. Restina af súpunni borðuðum við í hádeginu áðan og þá var ennþá eftir einn skammtur svo hann fór í frystinn og bíður betri tíma.

Svo má ekki gleyma því sem ég er alltaf að hamra á, að það er algjör óþarfi að henda mat ef það er ekkert að honum. Ef einhverjum dettur í hug að gera þessa dýrindis kartöflusúpu heima munið þá að henda ekki flusinu heldur hafa það sem kvöldsnakk yfir bíómynd kvöldsins - flus, olía, salt og pipar í eldfast mót og inní ofn við háan hita í 20-30 mín.- fljótlegt, ódýrt og gott en ekkert svakalega hollt.

Húsráð dagsins:
Lærðu að elska edik.
Edik og vatn í spreybrúsa og þá ertu komin með fínasta fægilög tilvalinn á gler og spegla, svo skemmir ekki fyrir að geyma eitt fréttablað fyrir næsta hreingerningardag og pússa gler og spegla með dagblaði og edikblöndunni. Speglarnir í húsinu munu aldrei hafa verið hreinni en eftir þau þrif!
Edik er einnig mjög gott í margt annað, ef það er vond lykt er um að gera að setja edik í skál og láta standa, vonda lyktin mun hverfa (og edik lyktin líka). Þannig nær maður t.d. vondri lykt úr ísskápum og frystikistum, einnig nota ég edik þegar ég þvæ lopaflikurnar mínar, edikið festir litinn. Edik dugar líka vel á marga bletti í þvotti, einnig til að ná svitalykt úr fötum, svo er ekkert að því að setja edik með í þvottavélina, það eyðir lykt, festir litinn og mýkir þvottinn. Svo segir sagan að það hreinsi burt kísil á blöndunartækjum.
Ég nota borðedik sem fæst í öllum matvöruverslunum og það og klósetthreinsir er það eina sem er í "hreingerningarskápnum" mínum.




fimmtudagur, 15. september 2011

Prjónakarfan


Það er orðið frekar langt síðan ég leyfði ykkur að kíkja í prjónakörfuna mína. Prjónakörfuna mína fékk ég í arf frá ömmu en þetta var prjónakarfan hennar. Í henni geymi ég einungis dótið sem ég er með á prjónunum, þar með talið verkefni sem eru tilbúin að öllu leyti nema einu... og það er að það á eftir að ganga frá endum! Það hefur einmitt verið eitt það leiðinlegasta sem ég geri, reyndar er það að vinna sig upp stigann og mér finnst það ekki alveg óbærilegt lengur.
Annarsstaðar í íbúðinni er ég með bunka af óþvegnum prjónaflíkum, á eftir að koma mér í það að þvo þær. Þar á meðal er lopapeysa og nokkrar afmælis- og jólagjafir!
Í prjónakörfunni sést í sokka sem ég er að leggja lokahönd á, en það er afmælisgjöfin hans pabba, gaf honum gjafabréf uppá sokkapar í febrúar svo það er kominn tími til að klára þá!

Annars langaði mig að sýna ykkur tvennar flíkur sem ég var að klára:



Nr. 1 - Kragi
Uppskriftin er í bókinni Prjónaperlur sem ég hef minnst á einhvern tímann áður, annars ætti það ekki að koma neinum á óvart að þetta er klukkuprjónskragi (elsku elsku klukkuprjón) prjónaður úr brúnum álafosslopa og einhverri týpu af brúngrænum plötulopa. Kom agalega vel út að mínu mati, núna verður Sindri bara að nota hann þangað til hann hættir að stinga, það var aðeins vælt þegar ég skellti honum á hann til að taka mynd.




Nr. 2 - Húfa

Þessi uppskrift er úr einhverju Lopa blaði, en þetta er afskaplega einföld húfa, klukkuprjón, hvítur bulky lopi og heklað blóm. Skv. uppskriftinni átti hún að vera lengri og bretta uppá kantinn en það er algjör óþarfi að fara eftir uppskriftum frá a-ö og ég ákvað að hafa hana styttri. Er mjög ánægð með það. Svo finnst mér e-ð frekar kúl við blómið!
Þessi er hlý, fljótt prjónuð og falleg.




Svo er það stóra spurningin, hvenær er maður ekki í átaki? Maður er í góðra vina hóp, allir að fá sér eitthvað óhollt, maður afþakkar kurteisilega "Ég er nefninlega nýbyrjuð í átaki", eins og alltaf, aldrei endist það neitt rosa lengi, maður fer að narta eftir 10 mín.



Þess vegna hef ég fengið nýja sýn á þetta, ég er ekki átaki en ég einbeiti mér að því að borða hollt og fá mér alltaf eitthvað hollt þegar ég fæ mér að borða.
Einn liðurinn í því að borða hollt er að drekka grænt te á hverjum degi, það á nefninlega að vera svo agalega hollt. Því miður finnst mér te yfirhöfuð mjög vont, heitt, vont bragð og ég fýla eiginlega ekkert við það. Þá er gott að þekkja sniðugt fólk en í blogginu hjá Ölmu Rún sagði hún eitt sinn frá því hvað hún gerði við grænt te svo það væri drekkandi fyrir svefninn.
Við hermdum eftir, núna sjóðum við pott af grænu te-i, kælum, setjum í flöskur, inní ísskáp og drekkum það síðan kalt. Sindri tilraunakokkur hefur reyndar bætt ýmsu við hann er agalega hrifinn af öllu sem er sterkt svo það er grænt te með miklu engiferi, cayenna pipar, negul og ég veit ekki hvað og hvað. Því miður þá finnst mér svona sterkt te ekki gott, sérstaklega ekki með miklu miklu engiferi eins og Sindri setur. Þess vegna látum við það standa extra lengi þegar það kólnar svo piparinn og engiferbitarnir setjist á botninn. Síðan fæ ég efra lagið í pottinum og Sindri neðra lagið. Þanning fæ ég góða te-bragðið sem er ekki of sterkt.


Húsráð dagsins: Er baninn við það að skemmast, ekki orðinn brúnn en samt þannig að þú vilt eiginlega ekki borða hann? Skelltu honum í frysti, frosinn banani er ótrúlega góður! Ef þú vilt gera aðeins meira en bara frosinn banana taktu hann þá í tvennt og fylltu  með hnetusmjöri eða súkkulaði (bræddu eða t.d. nutella), settu hann í álpappír og í frystinn. Þvílíkt góður eftirréttur. Mæli eindregið með þessu.
Það er kreppa, bananir eru dýrir og bananarækt er ekkert grín, eftir að ég fræddist um bananarækt get ég ekki hugsað mér að henda einum einasta banana þá hugsa ég bara um aumingja bændurna!

Njótið vel
-Sigríður Árdal


miðvikudagur, 7. september 2011

Kartöfluflus!


Síðast lét ég vita að ég væri að fara að gera svolítið agalega spennandi með matnum. Jæja það tókst svona ótrúlega vel.
Í fyrsta lagi þá ætla ég að minna alla á að það er algjör óþarfi að henda afgangsmat. Var steikt of mikið hakk? Skorið niður of mikið grænmeti? Soðnar of margar kartöflur? Gulræturnar að skemmast? Paprikan orðin ljót? Farið að frysta úti og graslaukurinn í garðinum að eyðileggjast?

Elskurnar mínar, borðið bara meira salat með matnum, skerið paprikuna niður og frystið, góð í pottrétti eða ofnrétti, á pizzuna hvenær sem er. Týnið graslaukinn, þvoið, saxið og frystið. Alveg eins og nýr hvenær sem þú vilt nota hann hvort sem það er í baksturinn, pottréttinn eða salatið. Notið gulræturnar og kartöflurnar í deig. Það er agalega gott, flysja soðnar kartöflur, stappa og skella útí deigið, pizzudeig, bolludeig, hvernig deig sem er. Svo er alls ekki verra að rífa gulræturnar niður og skella þeim saman við með kartöflunum.
Það gerði ég einmitt í gær, átti fullt af úrvals, soðnum kartöflum, flysjaði þeir og skellt í pizzadeigið.
Djöfull var pizzan góð, svo mjúk! 
En það var nú samt ekki það nýja og agalega spennandi sem ég var að prófa. Eins og hefur komið fram er ég agalega mikið á móti því að henda mat (nema náttúrlega hann sé virkilega ónýtur) svo mér var í raun illa við það að henda flusinu af kartöflunum. Ég rakst síðan á, fyrir heina tilviljun, síðuna "Hvað er í matinn" og þar fannst ég út hvað er hægt að gera við kartöfluflus!

Flusið sett í eldfast mót
Smá olía, ólífuolía eða sólblóma - ég notaði nú bara olíuna sem ég átti, einhverja agalega fína euroshopper repjuolíu
Salt og pipar - því meira því sterkara


Inní ofn á mjög háan hita í ca. hálftíma. Ég hefði þetta náttúrlega alltof sterkt og alltof lengi inní. 230°C og í 27 mín, sumt var brunnið og fór í ruslið. Þetta var samt agalega gott, sérstaklega bitarnir sem voru með smá kartöflu á svo þeir voru harðir að utan og  mjúkir að innan!

Annars þá missti ég mig í eldhúsinu í dag, fór að baka ofaní nýju frystikistuna mína, ekki hægt að hafa hana svo gott sem tóma. Ég prófaði tvær nýjar uppskriftir hef ekki ennþá smakkað eplabrauðið sem ég bakaði en ef það verður gott þá er aldrei að vita nema ég deili því með ykkur. Svo bjó ég líka til haframjölskökur sem áttu að vera svona meinhollar. Ég byrjaði að baka og saup hveljur þegar ég sá sykurmagnið, hrásykur og púðursykur, shit það er sko ekkert hollara en hvítur sykur, ekki láta blekkjast! Ég dró snarlega úr sykurmagninu og setti í staðin meira af haframjöli og kókosmjöli en vá sykurbragðið af kökunum er ótrúlegt! Verður minnkað enn meira í næstu tilraun - þá kannski þori ég að skella henni inn því ekki ætla ég að fylla ykkur af sykri!


Afrakstur dagsins!

Jæja næturgestir á leiðinni, ætla að fara að taka til dýnur og sængur!

þriðjudagur, 6. september 2011

Eins og nýtt!


Hver hefur ekki lent í því að púðrið/sólarpúðrið/kinnaliturinn brotni? Alltaf er það jafn agalega sárt því maður hefur ekki endilega efni á því að kaupa nýtt. Stundum er þetta úr rándýru merki. 
Jæja ég lenti amk í því í sumar að kinnaliturinn minn brotnaði, ekki það að hann sé úr einhverju agalega dýru merki en mér fannst það samt leiðinlegt og nískupúkinn tímir sko alls ekki að kaupa nýjan kinnalit.
Sem betur fer var gott ráð ekki langt undan en ég mundi eftir að hafa lesið blogg um það hvernig svona mætti laga. Ég nýtti mér mátt google.is og svarið beið mín þar! Ætla að deila þessu með ykkur hérna, agalega einfalt, fljótlegt og þægilegt!

Þú þarft:
Brotið púður/sólarpúður/kinnalit
Spritt
1 blað eldhúspappír/klósettpappír
Eitthvað til að hræra með - ég notaði skaftið á pensli og þreif það svo eftir á.


Nr 1. - Mylja púðrið í ennþá minni agnir, svo það verði að dufti.

Nr. 2 - blanda spritti við og hræra vel saman.

Nr. 3 - Pressa með pappír svo það verði slétt.


Wholla!

Látið standa yfir nótt og þorna. Alveg eins og nýtt. Ég prófaði meira segja að nota þessa aðferð á sólarpúðrið mitt sem var í duftformi þegar ég keypti það og það er svo miklu betra að hafa það svona en sem duft. Núna er það ekkert að fara útum allt, er bara í dollunni og þyrlast ekki upp þegar ég opna dolluna!

Húrra fyrir internetinu!

Annars er ég að fara að prófa svolítið agalega spennandi með kvöldmatnum á eftir - ef það lukkast vel skal ég segja ykkur frá því, en ef þetta verður algjörlega mislukkað þá held ég því fyrir sjálfa mig!

sunnudagur, 28. ágúst 2011

Í rigningu ég syng..


Veðrið í dag var ekki uppá marga fiska, mér fannst það samt mjög gott. Ég hef alltaf verið hrifin af rigningu. Það er samt í algjöru uppáhaldi hjá mér að tjalda í rigningu og sofna við rigningarhljóðið á tjaldhimninum. Ég sat í dag við borðstofuborðið í nýju íbúðinni minni sem ég er að leigja, las kennsuáætlanir, fletti bókum og dundaði mér við ýmislegt og mér fannst alveg hreint æðislegt að ég heyrði í rigningunni fyrir utan. Eftir rigningu verður líka loftið svo ferskt og gott, besti tíminn til að fá sér göngutúr er einmitt eftir góðan rigningardag.
Dagurinn í dag var algjör afslöppunardagur, safnaði kröftum fyrir komandi viku því þótt ég hafi verið háskólanemi í viku núna þarf ég allri minni einbeitingu að halda til að vita hvenær ég á að vera hvar, rata á réttan stað og fylgjast með í tímum. Það tekur lúmskan tíma að ná áttum í háskólalífinu. Mér fannst reyndar agalega fyndið þegar ég var í bekkjartíma síðastliðinn föstudag og okkur var skipt í þriggja manna hópa og ég var sú eina sem hafði glósað á fyrirlestrinum. Var samt nokkuð ánægð með sjálfa mig og glósupennana mína.

Ég bauð Hannesi bróður í mat í kvöld, steikti fisk í raspi og Sindri bjó til karrýkartöflurétt sem var furðu góður. Hannes kom færandi hendi með skrifborðsstól og agalega fínan lampa. Það hefur verið afar hentugt við flutninga í nýja íbúð, fyrsta skipti að búa, að eiga eldri bróður sem er að taka íbúðina sína í gegn og þarf að losna við hina ótrúlegustu hluti, brauðsög, lampa, hillur, bókaskáp, sófa o.fl o.fl. Ekki hefur heldur skemmt fyrir blessaði flóamarkaðurinn hjá mömmu. Það var agalega fínt að rölta niður í bílskúr með pappakassa og taka diska, tupperware dalla og ýmislegt annað sem ég hefði líklegast aldrei farið og keypt mér þótt mér finnist agalega gott að eiga það.

Jæja klukkan orðin ellefu sem þýðir að ég ætla að koma mér í rúmið. Það er nefninlega mjög mikilvægt að fá góða nætursvefn. Hvað þá að eftir góðan nætursvefn býði manns hollur og góður morgunverður, í fyrramálið verður annaðhvort hafragrautur og lýsi eða heimatilbúið múslí og lýsi fyrir valinu. Við Sindri vorum nefninlega einmitt að dunda okkur um helgina við að búa til heimatilbúið músli til að eiga í morgunmat.


Heimatilbúið múslí:
Komið í krukkuna og krukkan á sinn stað!
Haframjöl, sólblómafræ, niðurskornar hnetur blandað saman í eldfast mót. Hunangi og kanil skellt yfir. Þetta er síðan sett inní ofn og hrært reglulega í þessu þar til að þetta hefur ristast hæfilega, orðið fallega gullbrúnt á lit. Kælt niður. Þurrkaðir ávextir settir útí, t.d. epli, bananar, rúsínur eða það sem hugurinn girnist. Mér finnst afar freistandi að brytja niður dökkt súkkulaði og setja með. Múslí verður svo miklu betra ef það er súkkulaði í því, þótt það sé bara smá súkkulaði. Hollustan var í fyrirrúmi um helgina og ekkert súkkulaði fékk að fara í krukkuna!


laugardagur, 27. ágúst 2011

lestin er að fara...

Það er svo agalega margt sem getur gerst á stuttum tíma. Lífið hreinlega þýtur framhjá manni eins og umferðin á kringlumýrabraut. Allt í einu er sumarið búið, ég flutt inn með kærastanum í íbúð fyrir sunnan og byrjuð í háskóla. Gaman að segja frá því að í einum áfanganum á ég að halda dagbók svo kannski endar einhver færslan mín hér inná sem verkefni í HÍ. Kennaranámið byrjar spennandi, agalega ánægð með að hópnum er skipt uppí minni einingar svo þetta eru 20 manna bekkir sem ég er í. Bíður uppá fleiri tækifæri til að kynnast hinum en í risastórum fyrirlestra sal.
Það er vika síðan ég flutti suður og sú vika hefur farið í það að koma mér og búslóðinni fyrir, það hefur tekist eins og i draumi og allt komið á sinn stað núna.
Búið að versla allt sem þarf, húsmóðirin í mér og nískupúkinn voru reyndar agalega ósammála um það hvað væri nauðsynlegt að eyða peningunum í og hvað ekki.
Ég kem mér vonandi í það fljótlega að henda inn nokkrum myndum til að sýna sniðugar hugmyndir sem að brutust út þegar það var verið að koma öllu á sinn stað.

Uppskrift dagsins :
Kjúklingabringur (1 á mann), kryddað eftir tilfinningu, 
smellt í eldfast mót, dass af kotasælu skellt ofaná hverja bringu og inní ofn þar til tilbúið.
Með þessu sýð ég gjarnan hrísgrjón eða hef ofnbakaðar kartöflur og kjúklingasósu (pakkasósa) með papriku og hvítlauk, hún er í algjöru uppáhaldi.
Ferskt og gott salat með, í kvöld var lambhagasalat, rauð paprika, tómatar, rauðlaukur og vínber.

Krydd sen ég nota gjarnan á kjúkling eru m.a.  svartur pipar, kjúklingakrydd, krydd lifsins, oreganó og piri piri. Það er nú samt algjör óþarfi að setja þetta allt á í einu.
Það sem mér finnsta agalega nauðsynlegt í hverju eldhúsi er góð kryddhilla. Krydd gerir gæfumunin fyrir allan mat!

Þangað til næst
-Sigríður Árdal

sunnudagur, 7. ágúst 2011

Bananar!

Eg er sjúk í banana-eitthvað, bananabrauð, bananaköku, bananatopp og svo fleira. Veit ekki hvað það er, mér finnst bananar í bakstri svo góðir (fyrir utan í indverska-banana-epla-fiskréttinum í húsó en það er matur svo það er annað).
Hérna er uppskrift af bananabrauði sem mér finnst afskaplega gott. Held ég hafi ekkert breytt þessari, nema þá fjölgað bönunum því mér finnst yfirleitt of lítið af þeim bananauppskriftum.


2 dl sykur
1 stk egg
3 stk bananar
5 dl hveiti
½ tsk matarsódi 

Sykur og egg þeytt saman, bananarnir stappaðir og öllu blandað varlega saman. 
Bakað í 45 mín á 180°.


ommnommnommm
Annars er ég farin að hlakka til að flytja inní íbúðina fyrir sunnan þar sem ég get bakað það sem mig langar til þegar ég nenni því. Þvílíkur draumur!

Þangað til næst..

mánudagur, 1. ágúst 2011


Mikið geta fallegir hlutir orðið fallegri ef að þeir eru í réttu litunum.


Fyrir
Eftir

Græni liturinn hlaut ekki náð í litaflórunni minni þegar ég fékk þennan kassa að gjöf. Ég tók sandpappír og pensil og reddaði málunum, útkoman varð þessi yndislegi saumakassi sem ég er mjög ánægð með! Alltaf gaman að sauma og ekki skemmir að hafa fallega hluti hjá sér í leiðinni.

Annars þá var ég að laga til í herberginu mínu og rakst á easy stitch saumavél sem ég fékk í jólagjöf fyrir mörgum mörgum árum. Svolítill munur á henni og saumavélinni sem ég er að nota núna.



Ég er búin að vera að dunda mér við það tvö síðastliðin kvöld eftir vinnu að breyta gömlu pilsi í kjól, var svo sem búin að vera að nota það sem kjól en það var alltaf vesen með það en núna á það að svínvirka sem kjóll!


Á eftir að laga smá og setja eina teygju  og  vollah....

Vona að allir hafi átt góða helgi, ég eyddi minni í leiðinda veikindi svo ekki hef ég frá neinu skemmtilegu að segja. Njótið því sem eftir ef af sumrinu, þar sem að ágúst er byrjaður fer að styttast í að skólar hefjist!

Kveðja
Ég.



mánudagur, 25. júlí 2011

Prjónastund í Áshlíðinni.

Mig hefur lengi langað til að prjóna slá úr klukkuprjóni á sjálfa mig eins og þessa, ég hef alltaf átt allt til nema prjónana. Ég tók mig til í dag og keypti mér prjóna nr. 20 í bæjarferðinni.  Að prjóna á prjóna nr. 20 er frekar fyndið því þeir eru svo rosalega stórir!

Það reynir á að prjóna á svona stóra prjóna!
Annars þá er klukkuprjón mitt uppáhalds prjón, það er eitthvað svo yndislega þykkt og gott að koma við það svo er það líka ótrúlega fallegt, sérstaklega ef það er prjónað gróft. Mörgum finnst tilhugsunin um klukkuprjón agaleg, segja að það sé svo flókið. Þvert á móti er það mjög einfalt, tekur nokkrar umferðir að ná því og vollah þú spænir áfram! Það er mjög einfalt að nálgast lýsingu á klukkuprjóni, t.d. er lýsing í bókinni "lærið að prjóna" og bókinni "prjónaperlur". Annars er líka mjög lítið mál fyrir mig að skrifa niður lýsinguna fyrir áhugasama, þetta eru aðeins tvær línur!

Sláin mín, eða það sem er komið af henni. Prjónar nr. 20,
 tvöfaldur álafoss lopi, hvítur og ljósbrúnn prjónað saman.

 Ég sit í sófanum heima hjá Sindra, hann er vinstra megin við mig að ganga frá endum í húfunni sem að hann var að klára (með dyggri aðstoð þar sem að ég prjónaði 85% af henni) og hægra megin við mig situr litli bróðir hans og bisar við það að læra að prjóna. Honum finnst þetta frekar snúið, en gengur furðu vel!


Einn agalega stoltur!

Með þessu hvet ég alla til þess sem að langar að læra að prjóna að læra það! Það er ekkert sem stoppar ykkur nema þið sjálf, ef 7 ára drengur tekur sig til á mánudagskvöldi og lærir það þá geta það allir! Ég er líka rosalega til í að aðstoða ef einhver lendir í vandræðum!

Kveðja húsmóðirin!

föstudagur, 22. júlí 2011

Minningar

I fyrsta lagi er ég ekki hrifin af orðinu drasl.

Ég er rosalega mikill minningargrís (eins og nammigrís), ég elska minningar og ég sanka að mér allskyns dýrmætum sem að margir aðrir myndu kalla drasl. Hlutur að því að safna minningum er að geta haldið utanum hlutina svo maður drukkni ekki í pappírsbútum, myndum og öðrum hlutum. Í mínum fórum er að finna allskonar hluti, ég á part af ruslapoka, fjöður, trébút og svo ekki sé minnst á öll kortin og allar myndirnar. Þetta hljómar kannski eins og herbergið mitt sé að springa það sé svo fullt og ég hendi engu og losa mig aldrei við neitt. Nei nei það er nú ekki rétt, ég held bara eftir rosalega mikilvægum hlutum. Hlutum sem minna mig á merkileg tímamót í lífinu, yndislegar stundir og sanna vini. Ótrúlegt en satt þá er parturinn af ruslapokanum einn merkilegast hluturinn í herberginu mínu, amk að mínu mati.

Ég hef alltaf verið svolítið hrifin af korktöflum, ekki bara til að nota sem minnisspjald heldur líka til að geyma minningar á. Á tímabili átti ég tvær en ég hef losað mig við aðra þeirra. Margir kannast nú við hvað korktöflur geta verið agalega ljótar, allavegana finnst mér korktöflur engin stofustáss en ég rakst á síðu á netinu sem var með, að mínu mati, sniðuga leið til að gera korktöflu sæta og fína og jafnvel stofustáss! Ég tók mig til og keypti það sem til þurfti og mundaði skærin. Þetta varð útkoman :


Allt sem þurfti var blúnda og korktafla.
Blúnduna keypti ég í hjálpræðishernum svo ég get ekki sagt að það hafi farið mikill peningur í það að fegra korktöfluna. Blúndan er í augnablikinu fest með títiprjónum en það er aðeins til bráðabirgða, þurfti að sjá hvernig þetta kæmi út áður en að þetta yrði varanlegt. Ef vandað er valið á minningarsnepplunum sem fá að hanga á korktöflunni er hægt að hafa þetta hvar sem er í húsinu. Tala nú ekki um ef maður er að leigja litla íbúð þar sem að skrifborð, stofa og eldhús er í sama rýminu!

Annað sem hefur að geyma minningarnar mínar er minningarboxið mitt sem ég fékk að gjöf frá frænku minni og fjölskyldu hennar. Það eru orðin nokkur ár síðan ég fékk það og ég hef verið mjög dugleg við að setja stóra sem smáa hluti í það. Það eru ekki allir sem að skilja minningar manns, af hverju ein stund var merkilegri en önnur og hvernig í ósköpunum partur af ruslapoka getur verið mikilvægur hlutur. Þar af leiðandi fær enginn að gramsa í minningarboxinu mínu þótt vissulega nokkrir hafi fengið að sjá einn og einn hlut úr því!



Minningarkassinn minn, algjör dýrgripur!
Ég mæli með því að allir komi sér upp minngarkassa, stórum eða smáum. Það er visst gagnamagn sem að heilinn getur geymt og þá kemur minningarkassinn í góðar notir. Einfalt að taka hluti og rifja upp minningar tengdum honum þótt þú hugsir kannski ekki um það dagsdaglega. Það er samt einnig mjög mikilvægt að laga til í minningarkassanum reglulega til að rifja upp, svo að einn daginn sé þetta ekki kassi fullur af drasli.

miðvikudagur, 20. júlí 2011

Handavinna

Einsog svo margir aðrir lærði ég að prjóna í grunnskóla, af einskærri skyldu prjónaði ég lítil verkefni og svo var það búið. Fyrir forvitni skráði ég mig í textil áfanga í vali í Menntaskólanum þar var mér kennt að prjóna, hekla, þæfa og þrykkja. Í stuttu máli sagt þá fannst mér ótrúlega gaman að prjóna, þæfa og þrykkja en að hekla var algjör pynting! Aldrei hefur neinn heklað jafn ótrúlega ljótt stykki og ég gerði þessa önn og samt fór blóð, sviti og tár í það að klára það. Ég svór þess eið að snerta ekki heklunál aftur. Nokkrum vikum seinna tók ég þá ákvörðun að skrá mig í Hússtjórnarskólann í Reykjavík. Allt sem ég lærði þar er reynsla sem ég mun alltaf búa yfir. Ég þurfti reyndar að hekla en eftir ennþá meiri blóð, svita og tár tók ég heklið í sátt og er t.d. núna að hekla teppi sem er eitthvað sem ég hefði aldrei gert mér hugarlund um að gera fyrir ári síðan! Ég hef þó prjónað meira og finnst það afskaplega gaman og mér líður eins og mér séu allir vegir færir. Ég ætla að deila eitt af nýjustu verkefnunum mínum með ykkur en það er skrautlegt barnavesti sem ég er frekar ánægð með.

Prjónað úr léttlopa, prjónar nr. 4,5 í stroff og 5,5 í búk.

mánudagur, 18. júlí 2011

Hoppa útí djúpu laugina, þó með sundgleraugu

Gutlið í maganum varð loks að veruleika. Þegar ég var að ferðast um evrópu í vor og hélt bloggsíðu rifjaðist upp fyrir mér hvað mér fannst voðalega notalegt að setjast niður og skrifa. Evrópubloggið var nú samt algjör dagbók til að fólkið heima á Íslandi gæti fylgst með ævintýrunum en þetta verður annað. Ég efast nefninlega stórlega um að einhver nenni að lesa hvað ég geri á daginn, hvernig var í vinnunni, hvað það komu margir í sund til mín og hvað ég gerði eftir vinnu. Þetta verða meira pælingar, hugmyndir sem ég fæ í dagsins önn, girnilegar uppskriftir (hollar og óhollar) og það sem ég er með á prjónunum (bókstaflega).

Endilega látið heyra í ykkur ef þið eigið leið hér um.

-Sigríður Árdal