mánudagur, 16. janúar 2012

Nýtt ár - nýtt blogg!

Jæja nú er langa jólafríið búið, fékk rúman mánuð í jólafrí svo ekki get ég kvartað yfir því að vera mætt aftur í hversdagsleikann. Jólafríið fór afskaplega vel í mig, ég var heima í sveit allan tímann, bakaði heilan helling fyrir jólin, las margar bækur, fór í fjós og slappaði svo mikið af að ég var eiginlega orðin þreytt.


Skírnarkjólar, barnakjólar, skór og nálapúðar.
Ég fór nú samt ekki norður fyrr en ég var búin að fara í opið hús hjá Hússtjórnarskólanum, en það var 10. desember síðastliðinn. Það klikkar ekki að fara þangað, þótt það sé aðeins til að sjá eitthvað fallegt, ég fór þangað til að sjá fallega hluti, borða kökurnar sem ég var komin með ógeð á eftir eina önn, og hitta stelpurnar sem voru með mér í skólanum. Við reynum samt að hittast mánaðarlega, en það er einhvern veginn önnur stemming þegar maður hittist í skólanum og er að borða kökurnar góðu...Þetta var ótrúlega gaman og að sjálfsögðu sá maður eitthvað sem manni dauðlangaði til að gera.



Skólinn byrjaði aftur fyrir viku síðan, fyrsta skólavikan fór ekki vel í mig þar sem að ég var veik alla vikuna, byrjaði með hita og fékk síðan svo heiftarlegt mígreniskast að ég lá í rúminu í næstm 3 sólarhringa ef ég legg allt saman. Í byrjun nýs árs endurskoða ég oft það sem ég hef gert á liðnu ári, og fer að pæla í því sem mig langar til að gera. Síðastliðið ár var alveg frábært, ég vann á leikskóla og lærði ótrúlega margt af því, ég fór í interrail með Sindra og við ferðuðumst um evrópu og heimsóttum vini okkar. Um sumarið vann ég í sundlaug, fór á skyndihjálparnámskeið og ferðaðist aðeins innanlands og um haustið fluttum við til Reykjavíkur og byrjuðum að búa, ég byrjaði í nýjum skóla, nýju námi, kynntist nýju fólki og átti ótrúlega skemmtilega önn.

Hins vegar er listinn yfir það sem mig langar að gera svo mun lengri, ég ætla ekki að fara útí hann hérna, en það er bókað að ég ætla að gera eins margt á honum og ég hef kost á, aðalega það sem ég hef efni á. Ótrúlegt en satt þá er ekkert rosalega að borga sig að vera námsmaður og leigja útí bæ... 

Í lokin fylgir hérna mynd af hitaplöttum sem ég föndraði fyrir jól og gaf frænku minni í jólagjöf. 

Gömul, ónýt lopapeysa, þæfð í þvottavél, klippt út eftir formi.og smá útsaumur í köntunum, til að lífga uppá þetta.

Þetta var barnapeysa sem ég þæfði, á svona 9-11 ára barn. Ég náði alveg 8-9 hitaplöttum úr henni, svo ef einhverjum langar í svona fínan hitaplatta má hafa samband við mig, annars mun þetta verða partur af afmælisgjöfum þeirra sem eiga afmæli snemma á árinu :)

Þetta er mjög einfalt og skemmtileg gjöf. Enda skemmir ekki fyrir að eiga fallega hitaplatta.


Hafið það gott þangað til næst.

Kveðja



fimmtudagur, 1. desember 2011

Fallegir hlutir

Í tilefni þess að ég náði að klára takmark dagsins í dag í lærdómnum ákvað að ég að skella inn nokkrum myndum.






Þessa peysu prjónaði ég og gaf Hannesi bróður í þrítugs afmælisgjöf. Fékk Sindra til að pósa fyrir mig í henni þegar að snjórinn var kominn.

Finnst þessi mjög flott, er í Lopa 12 held ég alveg ábyggilega.


Svo ætla ég að láta nokkrar myndir frá síðustu viku fylgja með, en snjókoman gerði alveg útslagið og setti mig í dúndrandi jólastemmingu. Getið ekki ímyndað ykkur hvað ég var glöð daginn sem ég vaknaði og leit útum gluggan og jörðin var hvít.




    Jólagardínu breytt í jóladúk                           Sindri elskan að baka smákökur.                   Útsýnið útum stofugluggann,         .                                                                                                                                                        ævintýraland.







Ódýri aðventukransinn. Aðeins efniviður úr eldhúsinu og trjánum úti við göngustíg. Brún hrísgrjón, ber sem ég tíndi í haust, greni, perlur og kókosmjöl sem smá snjór.
Viðurkenni það reyndar að ég ætla mér að splæsa í veglegri kerti fyrir næsta sunnudag!


Kakó í múmínálfabollunum okkar og einhversstaðar voru smákökur á múmínálfadiskum!
















þriðjudagur, 22. nóvember 2011

Prófin nálgast

Nú er svo sannarlega kominn tími til að setjast niður og láta ljós mitt skína á lyklaborðið og koma með enn eina snilldina hérna inn.

Í dag verður eitthvað fyrir handóða, matóða og hreingerningaróða. Nú þegar prófin eru að fara að skella á þá finn ég mér alltaf eitthvað nýtt að gera, annað en lærdóminn. Núna t.d. sit ég á bókasafninu í Stakkahlíðinni og langar mest til þess að naglalakka á mér neglurnar, ég er með allt til þess í töskunni, svona ef mér skyldi leiðast. Annars gerðist ég stór stelpa í morgun og prófaði þessa þjóðarbókhlöðu, fínt að hafa lokið því af, núna þarf ég ekki að fara þangað aftur.Ég fór meira segja líka á háskólatorg þar þurfti ég að borða með plasthnífapörum. Nei þá held ég að það sé betra að vera í stakkó! Annars eitt af því sem ég hef verið að dunda mér við uppá síðakastið er að klára ýmislegt sem ég hef verið með á prjónunum og  tilraunastarfsemi í eldhúsinu.

Handavinna
Hérna er reyndar mynd af eyrnaskjóli og vettlingum sem ég gerði í sumar, langt síðan ég hef tekið myndir af handavinnunni. Uppskriftin af eyrnaskjólinu fékk ég í bókinni Prjónaperlur, vettlingana spann ég síðan út frá munstrinu á eyrnaskjólunum. Tvöfaldur  plötulopi. Þetta eru frekar geggjaðir litir saman finnst mér!

Annars ég er að klára peysu á Sindra, á aðeins eftir að festa tölurnar svo er aldrei að vita nema ég skelli inn mynd hérna!



Uppskrift

Hver kannast ekki við að hafa "bara" fahitas í matinn því það er fljótlegt og einfalt. Svo kemur sá dagur að það er ekki spennandi lengur en þá er fínt að taka kökur (1-2 á mann) tala nú ekki um ef það er afgangur af steiktu hakki eða steiktum kjúklingi inní ísskáp, upplagt að nota afgangana í þetta.
Kökurnar eru hitaðar örlítið og síðan smurðar með salsa sósu, ostasósu, sýrðum rjóma og guacamole eða bara það sem þér finnst gott!
Svo er næsta spurning, hvaða grænmeti finnst þér gott pínu hitað? Ég persónulega set lauk og sveppi inn í og hef papriku, tómata og gúrku ferska með.
Því næst er ein ostssneið sett og að lokum sett steikt hakk eða steiktur kjúklingur. Kökunni er síðan lokað eftir bestu getu (ég nota tannstöngla til að festa) en nota ben það er ekkert einfalt, það þarf líka að passa sig á því að setja ekki of mikið inní kökuna þá er þetta náttúrlega vonlaust mál. Svo raða ég kökunum í eldfast  mót, dreifi smá osti yfir og skelli síðan tómatsneið á hverja köku, bara af því að mér finnst það gott. Þetta er inní ofni á meðan hrísgrjónin eru að sjóða.
Hrísgrjón eru annars soðin þannig að það er eitt mál af hrísgrjónum og tvö af vatni, tilbúið þegar vatnið er horfið (passa að lækka hitann undir pottinum). Borið fram með nachos og grænmeti.

Dýrindis máltíð alveg hreint, ef ykkur finnst vera of lítil sósa þá er um að gera að bera sósurnar með fram.



Húsráð dagsins
Þetta er frekar öðruvísi húsráð, en ef allt bregst, það getur enginn sem þú þekkir hjálpað þér. Taktu þá upp símann og hringdu í Leiðbeiningastöð heimilanna, þar mun svara þér manneskja full af fróðleik og fús til að hjálpa. Einnig er margt gagnlegt og gott á heimasíðunni þeirra, mikið af uppskriftum og það er hægt að skrá sig inn og safna sér í uppskriftarmöppu! Mæli með þessu!

mánudagur, 14. nóvember 2011

Spaghettiskrísmli.

Eitt stutt í tilefni mánudagsins.

Skemmtileg hugmynd fyrir spaghetti. Einfalt, fljótlegt og örugglega gott. Fékk ekki að smakka í þessari tilraunastarfsemi í eldhúsinu heima en Sindri fékk hugmyndina á 9gag.

Já þetta er gert nákvæmlega eins og þú ert að hugsa, pylsubitar þrædd uppá spaghetti og soðið. Borið fram með því sem þér dettur í hug væntanlega, í þessu tilfelli tómatsósu.

mánudagur, 17. október 2011

Sunnudagsmáltíðin.

Það er svo sannarlega búið að vera líf og fjör hjá mér síðustu viku. Síðastliðinn þriðjudag vaknaði ég klukkan 05:30 og brunaði norður yfir heiðar og var mætt heim í Fnjóskadalinn fyrir hádegi. Ég átti mjög annasama daga fyrir norðan áður en að ég brunaði aftur suður á fimmtudagskvöldinu. Sigga frænka, maður og barn komu síðan um nóttina og gistu hjá okkur um helgina. Þau fóru í hádeginu í dag af stað aftur og það verður að segjast að litla dýrið þeirra er orkumikið! Á morgun eru svo mamma og pabbi að koma í heimsókn á leið sinni útá keflavíkurflugvöll.

Annars þá verður þetta stutt, ætlaði rétt að segja ykkur frá sunnudagsmáltíðinni. Margir líta á sunnudaga sem veisludaga, ekki endilega eitthvað óhollt heldur bara eitthvað rosalega gott. Í sunnudagsmatinn hjá mér í kvöld voru lambakótilettur með tilheyrandi. Mjög einfalt og agalega gott.

1. skál: Egg og mjólk hrært saman.
2. skál: Brauðrasp + krydd (pipar og salt)

Kótiletturnar eru marðar með kjöthamri og síðan velt uppúr skál 1 og svo skál 2, steikt í smá stund á hvorri hlið á pönnu. Fá fallegan lit. Skellt í eldfast mót og inní ofn á meðan restin er útbúin. Meðlætið í kvöld var afar einfalt, afgangur af ferska salatinu frá því í gær og afgangar af soðnum kartöflum. Reyndar tók ég kartöflurnar og skar í bita, steikti á pönnu (þar til heitar í gegn) og kryddaði  - aðeins betra en kaldar soðnar kartöflur. Einnig var ég með steikt grænmeti, lauk, púrrlauk, gulrætur, brokkolí, blómkál og paprika skorið niður og steikt á pönnu, kryddað með aromati, piparblöndu og jurtasalti. Með þessu hafði ég svo afar ómerkilega pakka-sveppasósu bragðbætta með kjötsoðinu sem kom í mótið eftir ofnveruna.
Þegar meðlætið var tilbúið tók ég kjötið úr ofninum.Namm namm.

(okay ég svindlaði, það voru ekki til egg svo ég setti smá hveiti útí mjólkina í skál 1 - en það virkar alveg jafn vel svo ekki örvænta ef það eru ekki til egg!)

Húsráð dagsins:
Blettir í flíkum að fara með þig? Ég nota uppþvottalög eða edik á bletti, ef það virkar ekki tek ég penslasápuna frá undra og nudda á blettinn, skelli í plastpoka, bind fyrir og set það síðan í þvott sólahring síðar.

Ég hélt ég ætlaði aldrei að ná karrýblettum úr hvíta bolnum mínum, að lokum setti ég uppþvottalög á blettinn, beið í sólahring í lokuðum plastpoka og beint í þvottavélina -bolurinn hefur aldrei litið betur út!
Ég fékk gamla kósý peysu frá ömmu, mamma hirti hana fyrir mig svo ég gæti tekið tölurnar, en það voru gulir stórir blettir í peysunni og hún var lengst inni í skáp svo það hefur greinilega verið langt síðan að amma notaði hana.Ég tímdi ekki að gefast uppá peysunni enda fannst mér hún alveg geggjuð!
Penslasápan gerði ótrúlegt kraftaverk, nuddaði henni á blettina, setti í plastpoka, batt fyrir og sólarhring seinna handþvoði ég hana (prjónuð peysa) og voilá! Næstum betri en ný - Ef þið komið í óvænta heimsókn á kósý læridegi er bókað mál að ég er í peysunni, blettalausri!

mánudagur, 3. október 2011

Kartöflusúpa!

Uppskrift dagsins er ótrúlega einföld en ótrúlega góð. Ég var í einhverju basli í gær yfir því hvað ég ætti að elda, nennti því eiginlega ekki, þurfti að læra en langaði í góðan mat. Ég leit inní ísskáp og sá að ef ég ætti nóg af einhverju væru það kartöflur, enda eru kartöflur eitt af því sem mér finnst algjörlega ómissandi með mat. Útkoman í gærkvöldi var algjört lostæti.


Kartöflusúpa:
Innihald: Kartöflur, rauðlaukur, laukur, hvítlaukur, púrrlaukur, gulrætur, paprika, smurostur, mjólk, grænmetiskraftur og nautakraftur.

Aðferð: Flysjaði kartöflurnar, skar í passlega munnbita og sauð þær. Brytjaði laukana, gulrætur og papriku niður og steikti við vægan hita á pönnu. Þegar kartöflurnar voru næstum því soðnar skellti ég grænmetinu útí pottinn, setti slatta af smurosti (létt beikon osti) og dass af mjólk útí.Síðan fóru 2 teningar af grænmetiskrafti og einn af nautakrafti útí. Þetta lét ég allt saman sjóða saman í dágóðastund (eða þar til að kartöflurnar og grænmetið var tilbúið).


Glöggir lesendur átta sig á því að það er ekkert magn gefið uppí uppskriftinni, ástæðan fyrir því að ég er ekkert hrifin af mælieiningum þegar ég galdra eitthvað fram úr erminni. Ég skoðaði nokkrar mismunandi uppskriftir af kartöflusúpu áður en ég hófst handa í gær, tók allt það besta (að mínu mati) úr þeim öllum og setti í pott, jafn mikið af öllu og mig langaði til að hafa í súpunni minni, því ég veit hvað mér finnst gott og hvað ekki. T.d. finnst mér laukur agalega góður enda fór 1 laukur, 1 rauðlaukur, 2 hvítlauksgeirar og frekar mikið af púrrlauk í súpuna en aftur á móti setti ég frekar lítið af gulrótum því mér finnst þær ekki jafn góðar. Það er líka snilldin við matseld, maður hefur bara það sem manni sjálfum finnst gott, ef einhverjum finnst t.d. sellerí geðveikt gott þá er um að gera að skella því með eða rófum eða tja eiginlega bara því sem hugurinn girnist (innan skynsamlegra marka þó).

Ég gerði mér ekki grein fyrir því hvað þetta var rosalega matarmikil súpa þegar ég hófst handa þannig að það var nóg af afgangi, einnig hitaði ég brauð með því venjulega verð ég að hafa brauð með súpu en því var algjörlega ofaukið í gær. Restina af súpunni borðuðum við í hádeginu áðan og þá var ennþá eftir einn skammtur svo hann fór í frystinn og bíður betri tíma.

Svo má ekki gleyma því sem ég er alltaf að hamra á, að það er algjör óþarfi að henda mat ef það er ekkert að honum. Ef einhverjum dettur í hug að gera þessa dýrindis kartöflusúpu heima munið þá að henda ekki flusinu heldur hafa það sem kvöldsnakk yfir bíómynd kvöldsins - flus, olía, salt og pipar í eldfast mót og inní ofn við háan hita í 20-30 mín.- fljótlegt, ódýrt og gott en ekkert svakalega hollt.

Húsráð dagsins:
Lærðu að elska edik.
Edik og vatn í spreybrúsa og þá ertu komin með fínasta fægilög tilvalinn á gler og spegla, svo skemmir ekki fyrir að geyma eitt fréttablað fyrir næsta hreingerningardag og pússa gler og spegla með dagblaði og edikblöndunni. Speglarnir í húsinu munu aldrei hafa verið hreinni en eftir þau þrif!
Edik er einnig mjög gott í margt annað, ef það er vond lykt er um að gera að setja edik í skál og láta standa, vonda lyktin mun hverfa (og edik lyktin líka). Þannig nær maður t.d. vondri lykt úr ísskápum og frystikistum, einnig nota ég edik þegar ég þvæ lopaflikurnar mínar, edikið festir litinn. Edik dugar líka vel á marga bletti í þvotti, einnig til að ná svitalykt úr fötum, svo er ekkert að því að setja edik með í þvottavélina, það eyðir lykt, festir litinn og mýkir þvottinn. Svo segir sagan að það hreinsi burt kísil á blöndunartækjum.
Ég nota borðedik sem fæst í öllum matvöruverslunum og það og klósetthreinsir er það eina sem er í "hreingerningarskápnum" mínum.




fimmtudagur, 15. september 2011

Prjónakarfan


Það er orðið frekar langt síðan ég leyfði ykkur að kíkja í prjónakörfuna mína. Prjónakörfuna mína fékk ég í arf frá ömmu en þetta var prjónakarfan hennar. Í henni geymi ég einungis dótið sem ég er með á prjónunum, þar með talið verkefni sem eru tilbúin að öllu leyti nema einu... og það er að það á eftir að ganga frá endum! Það hefur einmitt verið eitt það leiðinlegasta sem ég geri, reyndar er það að vinna sig upp stigann og mér finnst það ekki alveg óbærilegt lengur.
Annarsstaðar í íbúðinni er ég með bunka af óþvegnum prjónaflíkum, á eftir að koma mér í það að þvo þær. Þar á meðal er lopapeysa og nokkrar afmælis- og jólagjafir!
Í prjónakörfunni sést í sokka sem ég er að leggja lokahönd á, en það er afmælisgjöfin hans pabba, gaf honum gjafabréf uppá sokkapar í febrúar svo það er kominn tími til að klára þá!

Annars langaði mig að sýna ykkur tvennar flíkur sem ég var að klára:



Nr. 1 - Kragi
Uppskriftin er í bókinni Prjónaperlur sem ég hef minnst á einhvern tímann áður, annars ætti það ekki að koma neinum á óvart að þetta er klukkuprjónskragi (elsku elsku klukkuprjón) prjónaður úr brúnum álafosslopa og einhverri týpu af brúngrænum plötulopa. Kom agalega vel út að mínu mati, núna verður Sindri bara að nota hann þangað til hann hættir að stinga, það var aðeins vælt þegar ég skellti honum á hann til að taka mynd.




Nr. 2 - Húfa

Þessi uppskrift er úr einhverju Lopa blaði, en þetta er afskaplega einföld húfa, klukkuprjón, hvítur bulky lopi og heklað blóm. Skv. uppskriftinni átti hún að vera lengri og bretta uppá kantinn en það er algjör óþarfi að fara eftir uppskriftum frá a-ö og ég ákvað að hafa hana styttri. Er mjög ánægð með það. Svo finnst mér e-ð frekar kúl við blómið!
Þessi er hlý, fljótt prjónuð og falleg.




Svo er það stóra spurningin, hvenær er maður ekki í átaki? Maður er í góðra vina hóp, allir að fá sér eitthvað óhollt, maður afþakkar kurteisilega "Ég er nefninlega nýbyrjuð í átaki", eins og alltaf, aldrei endist það neitt rosa lengi, maður fer að narta eftir 10 mín.



Þess vegna hef ég fengið nýja sýn á þetta, ég er ekki átaki en ég einbeiti mér að því að borða hollt og fá mér alltaf eitthvað hollt þegar ég fæ mér að borða.
Einn liðurinn í því að borða hollt er að drekka grænt te á hverjum degi, það á nefninlega að vera svo agalega hollt. Því miður finnst mér te yfirhöfuð mjög vont, heitt, vont bragð og ég fýla eiginlega ekkert við það. Þá er gott að þekkja sniðugt fólk en í blogginu hjá Ölmu Rún sagði hún eitt sinn frá því hvað hún gerði við grænt te svo það væri drekkandi fyrir svefninn.
Við hermdum eftir, núna sjóðum við pott af grænu te-i, kælum, setjum í flöskur, inní ísskáp og drekkum það síðan kalt. Sindri tilraunakokkur hefur reyndar bætt ýmsu við hann er agalega hrifinn af öllu sem er sterkt svo það er grænt te með miklu engiferi, cayenna pipar, negul og ég veit ekki hvað og hvað. Því miður þá finnst mér svona sterkt te ekki gott, sérstaklega ekki með miklu miklu engiferi eins og Sindri setur. Þess vegna látum við það standa extra lengi þegar það kólnar svo piparinn og engiferbitarnir setjist á botninn. Síðan fæ ég efra lagið í pottinum og Sindri neðra lagið. Þanning fæ ég góða te-bragðið sem er ekki of sterkt.


Húsráð dagsins: Er baninn við það að skemmast, ekki orðinn brúnn en samt þannig að þú vilt eiginlega ekki borða hann? Skelltu honum í frysti, frosinn banani er ótrúlega góður! Ef þú vilt gera aðeins meira en bara frosinn banana taktu hann þá í tvennt og fylltu  með hnetusmjöri eða súkkulaði (bræddu eða t.d. nutella), settu hann í álpappír og í frystinn. Þvílíkt góður eftirréttur. Mæli eindregið með þessu.
Það er kreppa, bananir eru dýrir og bananarækt er ekkert grín, eftir að ég fræddist um bananarækt get ég ekki hugsað mér að henda einum einasta banana þá hugsa ég bara um aumingja bændurna!

Njótið vel
-Sigríður Árdal