þriðjudagur, 22. nóvember 2011

Prófin nálgast

Nú er svo sannarlega kominn tími til að setjast niður og láta ljós mitt skína á lyklaborðið og koma með enn eina snilldina hérna inn.

Í dag verður eitthvað fyrir handóða, matóða og hreingerningaróða. Nú þegar prófin eru að fara að skella á þá finn ég mér alltaf eitthvað nýtt að gera, annað en lærdóminn. Núna t.d. sit ég á bókasafninu í Stakkahlíðinni og langar mest til þess að naglalakka á mér neglurnar, ég er með allt til þess í töskunni, svona ef mér skyldi leiðast. Annars gerðist ég stór stelpa í morgun og prófaði þessa þjóðarbókhlöðu, fínt að hafa lokið því af, núna þarf ég ekki að fara þangað aftur.Ég fór meira segja líka á háskólatorg þar þurfti ég að borða með plasthnífapörum. Nei þá held ég að það sé betra að vera í stakkó! Annars eitt af því sem ég hef verið að dunda mér við uppá síðakastið er að klára ýmislegt sem ég hef verið með á prjónunum og  tilraunastarfsemi í eldhúsinu.

Handavinna
Hérna er reyndar mynd af eyrnaskjóli og vettlingum sem ég gerði í sumar, langt síðan ég hef tekið myndir af handavinnunni. Uppskriftin af eyrnaskjólinu fékk ég í bókinni Prjónaperlur, vettlingana spann ég síðan út frá munstrinu á eyrnaskjólunum. Tvöfaldur  plötulopi. Þetta eru frekar geggjaðir litir saman finnst mér!

Annars ég er að klára peysu á Sindra, á aðeins eftir að festa tölurnar svo er aldrei að vita nema ég skelli inn mynd hérna!



Uppskrift

Hver kannast ekki við að hafa "bara" fahitas í matinn því það er fljótlegt og einfalt. Svo kemur sá dagur að það er ekki spennandi lengur en þá er fínt að taka kökur (1-2 á mann) tala nú ekki um ef það er afgangur af steiktu hakki eða steiktum kjúklingi inní ísskáp, upplagt að nota afgangana í þetta.
Kökurnar eru hitaðar örlítið og síðan smurðar með salsa sósu, ostasósu, sýrðum rjóma og guacamole eða bara það sem þér finnst gott!
Svo er næsta spurning, hvaða grænmeti finnst þér gott pínu hitað? Ég persónulega set lauk og sveppi inn í og hef papriku, tómata og gúrku ferska með.
Því næst er ein ostssneið sett og að lokum sett steikt hakk eða steiktur kjúklingur. Kökunni er síðan lokað eftir bestu getu (ég nota tannstöngla til að festa) en nota ben það er ekkert einfalt, það þarf líka að passa sig á því að setja ekki of mikið inní kökuna þá er þetta náttúrlega vonlaust mál. Svo raða ég kökunum í eldfast  mót, dreifi smá osti yfir og skelli síðan tómatsneið á hverja köku, bara af því að mér finnst það gott. Þetta er inní ofni á meðan hrísgrjónin eru að sjóða.
Hrísgrjón eru annars soðin þannig að það er eitt mál af hrísgrjónum og tvö af vatni, tilbúið þegar vatnið er horfið (passa að lækka hitann undir pottinum). Borið fram með nachos og grænmeti.

Dýrindis máltíð alveg hreint, ef ykkur finnst vera of lítil sósa þá er um að gera að bera sósurnar með fram.



Húsráð dagsins
Þetta er frekar öðruvísi húsráð, en ef allt bregst, það getur enginn sem þú þekkir hjálpað þér. Taktu þá upp símann og hringdu í Leiðbeiningastöð heimilanna, þar mun svara þér manneskja full af fróðleik og fús til að hjálpa. Einnig er margt gagnlegt og gott á heimasíðunni þeirra, mikið af uppskriftum og það er hægt að skrá sig inn og safna sér í uppskriftarmöppu! Mæli með þessu!

mánudagur, 14. nóvember 2011

Spaghettiskrísmli.

Eitt stutt í tilefni mánudagsins.

Skemmtileg hugmynd fyrir spaghetti. Einfalt, fljótlegt og örugglega gott. Fékk ekki að smakka í þessari tilraunastarfsemi í eldhúsinu heima en Sindri fékk hugmyndina á 9gag.

Já þetta er gert nákvæmlega eins og þú ert að hugsa, pylsubitar þrædd uppá spaghetti og soðið. Borið fram með því sem þér dettur í hug væntanlega, í þessu tilfelli tómatsósu.