Veðrið í dag var ekki uppá marga fiska, mér fannst það samt mjög gott. Ég hef alltaf verið hrifin af rigningu. Það er samt í algjöru uppáhaldi hjá mér að tjalda í rigningu og sofna við rigningarhljóðið á tjaldhimninum. Ég sat í dag við borðstofuborðið í nýju íbúðinni minni sem ég er að leigja, las kennsuáætlanir, fletti bókum og dundaði mér við ýmislegt og mér fannst alveg hreint æðislegt að ég heyrði í rigningunni fyrir utan. Eftir rigningu verður líka loftið svo ferskt og gott, besti tíminn til að fá sér göngutúr er einmitt eftir góðan rigningardag.
Dagurinn í dag var algjör afslöppunardagur, safnaði kröftum fyrir komandi viku því þótt ég hafi verið háskólanemi í viku núna þarf ég allri minni einbeitingu að halda til að vita hvenær ég á að vera hvar, rata á réttan stað og fylgjast með í tímum. Það tekur lúmskan tíma að ná áttum í háskólalífinu. Mér fannst reyndar agalega fyndið þegar ég var í bekkjartíma síðastliðinn föstudag og okkur var skipt í þriggja manna hópa og ég var sú eina sem hafði glósað á fyrirlestrinum. Var samt nokkuð ánægð með sjálfa mig og glósupennana mína.
Ég bauð Hannesi bróður í mat í kvöld, steikti fisk í raspi og Sindri bjó til karrýkartöflurétt sem var furðu góður. Hannes kom færandi hendi með skrifborðsstól og agalega fínan lampa. Það hefur verið afar hentugt við flutninga í nýja íbúð, fyrsta skipti að búa, að eiga eldri bróður sem er að taka íbúðina sína í gegn og þarf að losna við hina ótrúlegustu hluti, brauðsög, lampa, hillur, bókaskáp, sófa o.fl o.fl. Ekki hefur heldur skemmt fyrir blessaði flóamarkaðurinn hjá mömmu. Það var agalega fínt að rölta niður í bílskúr með pappakassa og taka diska, tupperware dalla og ýmislegt annað sem ég hefði líklegast aldrei farið og keypt mér þótt mér finnist agalega gott að eiga það.
Jæja klukkan orðin ellefu sem þýðir að ég ætla að koma mér í rúmið. Það er nefninlega mjög mikilvægt að fá góða nætursvefn. Hvað þá að eftir góðan nætursvefn býði manns hollur og góður morgunverður, í fyrramálið verður annaðhvort hafragrautur og lýsi eða heimatilbúið múslí og lýsi fyrir valinu. Við Sindri vorum nefninlega einmitt að dunda okkur um helgina við að búa til heimatilbúið músli til að eiga í morgunmat.
Heimatilbúið múslí:
Komið í krukkuna og krukkan á sinn stað! |
Haframjöl, sólblómafræ, niðurskornar hnetur blandað saman í eldfast mót. Hunangi og kanil skellt yfir. Þetta er síðan sett inní ofn og hrært reglulega í þessu þar til að þetta hefur ristast hæfilega, orðið fallega gullbrúnt á lit. Kælt niður. Þurrkaðir ávextir settir útí, t.d. epli, bananar, rúsínur eða það sem hugurinn girnist. Mér finnst afar freistandi að brytja niður dökkt súkkulaði og setja með. Múslí verður svo miklu betra ef það er súkkulaði í því, þótt það sé bara smá súkkulaði. Hollustan var í fyrirrúmi um helgina og ekkert súkkulaði fékk að fara í krukkuna!