sunnudagur, 28. ágúst 2011

Í rigningu ég syng..


Veðrið í dag var ekki uppá marga fiska, mér fannst það samt mjög gott. Ég hef alltaf verið hrifin af rigningu. Það er samt í algjöru uppáhaldi hjá mér að tjalda í rigningu og sofna við rigningarhljóðið á tjaldhimninum. Ég sat í dag við borðstofuborðið í nýju íbúðinni minni sem ég er að leigja, las kennsuáætlanir, fletti bókum og dundaði mér við ýmislegt og mér fannst alveg hreint æðislegt að ég heyrði í rigningunni fyrir utan. Eftir rigningu verður líka loftið svo ferskt og gott, besti tíminn til að fá sér göngutúr er einmitt eftir góðan rigningardag.
Dagurinn í dag var algjör afslöppunardagur, safnaði kröftum fyrir komandi viku því þótt ég hafi verið háskólanemi í viku núna þarf ég allri minni einbeitingu að halda til að vita hvenær ég á að vera hvar, rata á réttan stað og fylgjast með í tímum. Það tekur lúmskan tíma að ná áttum í háskólalífinu. Mér fannst reyndar agalega fyndið þegar ég var í bekkjartíma síðastliðinn föstudag og okkur var skipt í þriggja manna hópa og ég var sú eina sem hafði glósað á fyrirlestrinum. Var samt nokkuð ánægð með sjálfa mig og glósupennana mína.

Ég bauð Hannesi bróður í mat í kvöld, steikti fisk í raspi og Sindri bjó til karrýkartöflurétt sem var furðu góður. Hannes kom færandi hendi með skrifborðsstól og agalega fínan lampa. Það hefur verið afar hentugt við flutninga í nýja íbúð, fyrsta skipti að búa, að eiga eldri bróður sem er að taka íbúðina sína í gegn og þarf að losna við hina ótrúlegustu hluti, brauðsög, lampa, hillur, bókaskáp, sófa o.fl o.fl. Ekki hefur heldur skemmt fyrir blessaði flóamarkaðurinn hjá mömmu. Það var agalega fínt að rölta niður í bílskúr með pappakassa og taka diska, tupperware dalla og ýmislegt annað sem ég hefði líklegast aldrei farið og keypt mér þótt mér finnist agalega gott að eiga það.

Jæja klukkan orðin ellefu sem þýðir að ég ætla að koma mér í rúmið. Það er nefninlega mjög mikilvægt að fá góða nætursvefn. Hvað þá að eftir góðan nætursvefn býði manns hollur og góður morgunverður, í fyrramálið verður annaðhvort hafragrautur og lýsi eða heimatilbúið múslí og lýsi fyrir valinu. Við Sindri vorum nefninlega einmitt að dunda okkur um helgina við að búa til heimatilbúið músli til að eiga í morgunmat.


Heimatilbúið múslí:
Komið í krukkuna og krukkan á sinn stað!
Haframjöl, sólblómafræ, niðurskornar hnetur blandað saman í eldfast mót. Hunangi og kanil skellt yfir. Þetta er síðan sett inní ofn og hrært reglulega í þessu þar til að þetta hefur ristast hæfilega, orðið fallega gullbrúnt á lit. Kælt niður. Þurrkaðir ávextir settir útí, t.d. epli, bananar, rúsínur eða það sem hugurinn girnist. Mér finnst afar freistandi að brytja niður dökkt súkkulaði og setja með. Múslí verður svo miklu betra ef það er súkkulaði í því, þótt það sé bara smá súkkulaði. Hollustan var í fyrirrúmi um helgina og ekkert súkkulaði fékk að fara í krukkuna!


laugardagur, 27. ágúst 2011

lestin er að fara...

Það er svo agalega margt sem getur gerst á stuttum tíma. Lífið hreinlega þýtur framhjá manni eins og umferðin á kringlumýrabraut. Allt í einu er sumarið búið, ég flutt inn með kærastanum í íbúð fyrir sunnan og byrjuð í háskóla. Gaman að segja frá því að í einum áfanganum á ég að halda dagbók svo kannski endar einhver færslan mín hér inná sem verkefni í HÍ. Kennaranámið byrjar spennandi, agalega ánægð með að hópnum er skipt uppí minni einingar svo þetta eru 20 manna bekkir sem ég er í. Bíður uppá fleiri tækifæri til að kynnast hinum en í risastórum fyrirlestra sal.
Það er vika síðan ég flutti suður og sú vika hefur farið í það að koma mér og búslóðinni fyrir, það hefur tekist eins og i draumi og allt komið á sinn stað núna.
Búið að versla allt sem þarf, húsmóðirin í mér og nískupúkinn voru reyndar agalega ósammála um það hvað væri nauðsynlegt að eyða peningunum í og hvað ekki.
Ég kem mér vonandi í það fljótlega að henda inn nokkrum myndum til að sýna sniðugar hugmyndir sem að brutust út þegar það var verið að koma öllu á sinn stað.

Uppskrift dagsins :
Kjúklingabringur (1 á mann), kryddað eftir tilfinningu, 
smellt í eldfast mót, dass af kotasælu skellt ofaná hverja bringu og inní ofn þar til tilbúið.
Með þessu sýð ég gjarnan hrísgrjón eða hef ofnbakaðar kartöflur og kjúklingasósu (pakkasósa) með papriku og hvítlauk, hún er í algjöru uppáhaldi.
Ferskt og gott salat með, í kvöld var lambhagasalat, rauð paprika, tómatar, rauðlaukur og vínber.

Krydd sen ég nota gjarnan á kjúkling eru m.a.  svartur pipar, kjúklingakrydd, krydd lifsins, oreganó og piri piri. Það er nú samt algjör óþarfi að setja þetta allt á í einu.
Það sem mér finnsta agalega nauðsynlegt í hverju eldhúsi er góð kryddhilla. Krydd gerir gæfumunin fyrir allan mat!

Þangað til næst
-Sigríður Árdal

sunnudagur, 7. ágúst 2011

Bananar!

Eg er sjúk í banana-eitthvað, bananabrauð, bananaköku, bananatopp og svo fleira. Veit ekki hvað það er, mér finnst bananar í bakstri svo góðir (fyrir utan í indverska-banana-epla-fiskréttinum í húsó en það er matur svo það er annað).
Hérna er uppskrift af bananabrauði sem mér finnst afskaplega gott. Held ég hafi ekkert breytt þessari, nema þá fjölgað bönunum því mér finnst yfirleitt of lítið af þeim bananauppskriftum.


2 dl sykur
1 stk egg
3 stk bananar
5 dl hveiti
½ tsk matarsódi 

Sykur og egg þeytt saman, bananarnir stappaðir og öllu blandað varlega saman. 
Bakað í 45 mín á 180°.


ommnommnommm
Annars er ég farin að hlakka til að flytja inní íbúðina fyrir sunnan þar sem ég get bakað það sem mig langar til þegar ég nenni því. Þvílíkur draumur!

Þangað til næst..

mánudagur, 1. ágúst 2011


Mikið geta fallegir hlutir orðið fallegri ef að þeir eru í réttu litunum.


Fyrir
Eftir

Græni liturinn hlaut ekki náð í litaflórunni minni þegar ég fékk þennan kassa að gjöf. Ég tók sandpappír og pensil og reddaði málunum, útkoman varð þessi yndislegi saumakassi sem ég er mjög ánægð með! Alltaf gaman að sauma og ekki skemmir að hafa fallega hluti hjá sér í leiðinni.

Annars þá var ég að laga til í herberginu mínu og rakst á easy stitch saumavél sem ég fékk í jólagjöf fyrir mörgum mörgum árum. Svolítill munur á henni og saumavélinni sem ég er að nota núna.



Ég er búin að vera að dunda mér við það tvö síðastliðin kvöld eftir vinnu að breyta gömlu pilsi í kjól, var svo sem búin að vera að nota það sem kjól en það var alltaf vesen með það en núna á það að svínvirka sem kjóll!


Á eftir að laga smá og setja eina teygju  og  vollah....

Vona að allir hafi átt góða helgi, ég eyddi minni í leiðinda veikindi svo ekki hef ég frá neinu skemmtilegu að segja. Njótið því sem eftir ef af sumrinu, þar sem að ágúst er byrjaður fer að styttast í að skólar hefjist!

Kveðja
Ég.