mánudagur, 25. júlí 2011

Prjónastund í Áshlíðinni.

Mig hefur lengi langað til að prjóna slá úr klukkuprjóni á sjálfa mig eins og þessa, ég hef alltaf átt allt til nema prjónana. Ég tók mig til í dag og keypti mér prjóna nr. 20 í bæjarferðinni.  Að prjóna á prjóna nr. 20 er frekar fyndið því þeir eru svo rosalega stórir!

Það reynir á að prjóna á svona stóra prjóna!
Annars þá er klukkuprjón mitt uppáhalds prjón, það er eitthvað svo yndislega þykkt og gott að koma við það svo er það líka ótrúlega fallegt, sérstaklega ef það er prjónað gróft. Mörgum finnst tilhugsunin um klukkuprjón agaleg, segja að það sé svo flókið. Þvert á móti er það mjög einfalt, tekur nokkrar umferðir að ná því og vollah þú spænir áfram! Það er mjög einfalt að nálgast lýsingu á klukkuprjóni, t.d. er lýsing í bókinni "lærið að prjóna" og bókinni "prjónaperlur". Annars er líka mjög lítið mál fyrir mig að skrifa niður lýsinguna fyrir áhugasama, þetta eru aðeins tvær línur!

Sláin mín, eða það sem er komið af henni. Prjónar nr. 20,
 tvöfaldur álafoss lopi, hvítur og ljósbrúnn prjónað saman.

 Ég sit í sófanum heima hjá Sindra, hann er vinstra megin við mig að ganga frá endum í húfunni sem að hann var að klára (með dyggri aðstoð þar sem að ég prjónaði 85% af henni) og hægra megin við mig situr litli bróðir hans og bisar við það að læra að prjóna. Honum finnst þetta frekar snúið, en gengur furðu vel!


Einn agalega stoltur!

Með þessu hvet ég alla til þess sem að langar að læra að prjóna að læra það! Það er ekkert sem stoppar ykkur nema þið sjálf, ef 7 ára drengur tekur sig til á mánudagskvöldi og lærir það þá geta það allir! Ég er líka rosalega til í að aðstoða ef einhver lendir í vandræðum!

Kveðja húsmóðirin!

föstudagur, 22. júlí 2011

Minningar

I fyrsta lagi er ég ekki hrifin af orðinu drasl.

Ég er rosalega mikill minningargrís (eins og nammigrís), ég elska minningar og ég sanka að mér allskyns dýrmætum sem að margir aðrir myndu kalla drasl. Hlutur að því að safna minningum er að geta haldið utanum hlutina svo maður drukkni ekki í pappírsbútum, myndum og öðrum hlutum. Í mínum fórum er að finna allskonar hluti, ég á part af ruslapoka, fjöður, trébút og svo ekki sé minnst á öll kortin og allar myndirnar. Þetta hljómar kannski eins og herbergið mitt sé að springa það sé svo fullt og ég hendi engu og losa mig aldrei við neitt. Nei nei það er nú ekki rétt, ég held bara eftir rosalega mikilvægum hlutum. Hlutum sem minna mig á merkileg tímamót í lífinu, yndislegar stundir og sanna vini. Ótrúlegt en satt þá er parturinn af ruslapokanum einn merkilegast hluturinn í herberginu mínu, amk að mínu mati.

Ég hef alltaf verið svolítið hrifin af korktöflum, ekki bara til að nota sem minnisspjald heldur líka til að geyma minningar á. Á tímabili átti ég tvær en ég hef losað mig við aðra þeirra. Margir kannast nú við hvað korktöflur geta verið agalega ljótar, allavegana finnst mér korktöflur engin stofustáss en ég rakst á síðu á netinu sem var með, að mínu mati, sniðuga leið til að gera korktöflu sæta og fína og jafnvel stofustáss! Ég tók mig til og keypti það sem til þurfti og mundaði skærin. Þetta varð útkoman :


Allt sem þurfti var blúnda og korktafla.
Blúnduna keypti ég í hjálpræðishernum svo ég get ekki sagt að það hafi farið mikill peningur í það að fegra korktöfluna. Blúndan er í augnablikinu fest með títiprjónum en það er aðeins til bráðabirgða, þurfti að sjá hvernig þetta kæmi út áður en að þetta yrði varanlegt. Ef vandað er valið á minningarsnepplunum sem fá að hanga á korktöflunni er hægt að hafa þetta hvar sem er í húsinu. Tala nú ekki um ef maður er að leigja litla íbúð þar sem að skrifborð, stofa og eldhús er í sama rýminu!

Annað sem hefur að geyma minningarnar mínar er minningarboxið mitt sem ég fékk að gjöf frá frænku minni og fjölskyldu hennar. Það eru orðin nokkur ár síðan ég fékk það og ég hef verið mjög dugleg við að setja stóra sem smáa hluti í það. Það eru ekki allir sem að skilja minningar manns, af hverju ein stund var merkilegri en önnur og hvernig í ósköpunum partur af ruslapoka getur verið mikilvægur hlutur. Þar af leiðandi fær enginn að gramsa í minningarboxinu mínu þótt vissulega nokkrir hafi fengið að sjá einn og einn hlut úr því!



Minningarkassinn minn, algjör dýrgripur!
Ég mæli með því að allir komi sér upp minngarkassa, stórum eða smáum. Það er visst gagnamagn sem að heilinn getur geymt og þá kemur minningarkassinn í góðar notir. Einfalt að taka hluti og rifja upp minningar tengdum honum þótt þú hugsir kannski ekki um það dagsdaglega. Það er samt einnig mjög mikilvægt að laga til í minningarkassanum reglulega til að rifja upp, svo að einn daginn sé þetta ekki kassi fullur af drasli.

miðvikudagur, 20. júlí 2011

Handavinna

Einsog svo margir aðrir lærði ég að prjóna í grunnskóla, af einskærri skyldu prjónaði ég lítil verkefni og svo var það búið. Fyrir forvitni skráði ég mig í textil áfanga í vali í Menntaskólanum þar var mér kennt að prjóna, hekla, þæfa og þrykkja. Í stuttu máli sagt þá fannst mér ótrúlega gaman að prjóna, þæfa og þrykkja en að hekla var algjör pynting! Aldrei hefur neinn heklað jafn ótrúlega ljótt stykki og ég gerði þessa önn og samt fór blóð, sviti og tár í það að klára það. Ég svór þess eið að snerta ekki heklunál aftur. Nokkrum vikum seinna tók ég þá ákvörðun að skrá mig í Hússtjórnarskólann í Reykjavík. Allt sem ég lærði þar er reynsla sem ég mun alltaf búa yfir. Ég þurfti reyndar að hekla en eftir ennþá meiri blóð, svita og tár tók ég heklið í sátt og er t.d. núna að hekla teppi sem er eitthvað sem ég hefði aldrei gert mér hugarlund um að gera fyrir ári síðan! Ég hef þó prjónað meira og finnst það afskaplega gaman og mér líður eins og mér séu allir vegir færir. Ég ætla að deila eitt af nýjustu verkefnunum mínum með ykkur en það er skrautlegt barnavesti sem ég er frekar ánægð með.

Prjónað úr léttlopa, prjónar nr. 4,5 í stroff og 5,5 í búk.

mánudagur, 18. júlí 2011

Hoppa útí djúpu laugina, þó með sundgleraugu

Gutlið í maganum varð loks að veruleika. Þegar ég var að ferðast um evrópu í vor og hélt bloggsíðu rifjaðist upp fyrir mér hvað mér fannst voðalega notalegt að setjast niður og skrifa. Evrópubloggið var nú samt algjör dagbók til að fólkið heima á Íslandi gæti fylgst með ævintýrunum en þetta verður annað. Ég efast nefninlega stórlega um að einhver nenni að lesa hvað ég geri á daginn, hvernig var í vinnunni, hvað það komu margir í sund til mín og hvað ég gerði eftir vinnu. Þetta verða meira pælingar, hugmyndir sem ég fæ í dagsins önn, girnilegar uppskriftir (hollar og óhollar) og það sem ég er með á prjónunum (bókstaflega).

Endilega látið heyra í ykkur ef þið eigið leið hér um.

-Sigríður Árdal